Körfubolti

Henning: Gengur ekki að lenda 14 stigum undir á móti alvöru liðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Henning Henningsson, þjálfari Hauka.
Henning Henningsson, þjálfari Hauka. Mynd/Stefán
Henning Henningsson, þjálfari Hauka, sagði að slæmur fyrri hálfleikur hafi kostað sínar stelpur tap á móti Keflavík á Ásvöllum í Iceland Express deild kvenna í kvöld. Haukar töpuðu á endunum með aðeins einu stigi, 67-68.

„Fyrri hálfleikurinn fór alveg með okkur því það er ekki nóg að spila bara einn hálfleik. Stelpurnar verða bara að mæta tilbúnar í leikinn," sagði Henning.

„Þetta eru tveir hálfleikar og þú getur tapað leiknum í fyrri hálfleik alveg eins og í seinni hálfleik. Stelpurnar mættu bara ekki tilbúnar í leiknum. Það gengur ekki að lenda fjórtán stigum undir á móti alvöru liðum því þau gefa ekki svona forskot frá sér," sagði Henning.

Staðan var 29-43 fyrir Keflavík í hálfleik en Haukastelpurnar sýndu allt annan og betri leik í seinni hálfeik.

„Ég lagði bara upp með í hálfleik að þær færu að hafa meira gaman að hlutunum því það var engin í liðinu að njóta þess að spila körfubolta. Við þurftum að þétta vörnina því við hefðum skíttapað leiknum með sama áframhaldi," sagði Henning.

Þetta var fyrsta tap Hauka á heimavelli í vetur en liðið er eftir leikinn í 5. sæti þar sem Keflavík komst upp fyrir Haukana með þessum sigri.

„Staðan á liðinu hefur ekkert breyst. Við erum bara að byggja upp lið og við erum að vinna í því að fá leikmenn til að taka meiri ábyrgð inn á vellinum og stækka sitt hlutverk í liðinu. Þær þurfa að sýna það að við erum ekki bara einn leikmaður. Það eru fimm leikmenn inn á vellinum og þær þurfa allar að taka ábyrgð á hlutverki sínu," sagði Henning og bætti við.

„Þær læra vonandi á þessum leik hvernig þær eiga koma til leiks en þær lærðu alla vega hvernig á ekki að koma til leiks," sagði Henning að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×