Fótbolti

Kjartan Henry skoraði sigurmark Sandefjord

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kjartan Henry í leik með íslenska U-21 landsliðinu.
Kjartan Henry í leik með íslenska U-21 landsliðinu. Nordic Photos / AFP

Kjartan Henry Finnbogason var hetja Sandefjord er hann skoraði sigurmark sinna manna í 2-1 sigri á Lyn í norsku úrvalsdeildinni í dag.

Þetta var hans fyrsta mark í norsku úrvalsdeildinni á tímabilinu en hann hefur fá tækifæri fengið síðan að félagið tryggði sér sæti í deildinni á síðasta tímabili.

Hann hefur einungis komið við sögu í sjö leikjum á tímabilinu og aldrei spilað heilan leik. Hann fór til reynslu hjá skoska úrvalsdeildarliðinu Falkirk á dögunum en ekkert varð úr því að hann færi þangað.

Markið í dag var því kærkomið fyrir Kjartan Henry sem kom inn á sem varamaður á 68. mínútu og skoraði svo markið á þeirri 82.

Garðar Jóhannsson var í byrjunarliði Fredrikstad sem tapaði fyrir Start á útivelli, 1-0. Garðar fór af velli á 58. mínútu.

Árni Gautur Arason þótti eiga stórleik er Odd Grenland vann 2-1 á Álasundi á útivelli.

Fjórir Íslendingar fvoru í byrjunarliði Brann sem vann 4-2 sigur á Strömsgodset í dag. Kristján Örn Sigurðsson, Ólafur Örn Bjarnason, Birkir Már Sævarsson og Gylfi Einarsson byrjuðu allir en þeir Kristján og Gylfi fóru af velli undir lok leiksins. Ármann Smári Björnsson var á bekknum hjá Brann.

Rosenborg er sem fyrr með örugga forystu á toppi deildarinnar en Odd Grenland er í þriðja sæti með 36 stig, tólf stigum á eftir Rosenborg. Brann er í fjórða sæti með 33 stig, Sandefjord í því níunda með 25 stig og Fredrikstad í því tólfta með 22 stig.

Þegar þetta er skrifað stendur yfir leikur Vålerenga og Lilleström. Stefán Logi Magnússon stendur í marki Lilleström en þetta er hans fyrsti leikur með félaginu.

Í dönsku úrvalsdeildinni vann Bröndby 3-1 sigur á Randers á útivelli. Stefán Gíslason lék allan leikinn í liði Bröndby sem er í sjöunda sæti deildarinnar með sjö stig eftir fimm leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×