Handbolti

Jónatan: Við þurfum að fara í upptökupróf

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Jónatan Magnússon, fyrirliði Akureyrar.
Jónatan Magnússon, fyrirliði Akureyrar.
Fyrirliði Akureyrar segir tapið gegn Haukum í kvöld mikil vonbrigði. Akureyri tapaði með fjórum mörkum en liðið lék illa og sigur Hauka var aldrei í hættu.

"Þetta eru vonbrigði fyrir okkur og alla þá sem mættu. Ég ætlaði bara ekki að trúa stöðunni og holningunni á liðinu þegar þetta byrjaði. Við vorum bara á hælunum frá byrjun fyrir framan fullt af fólki. Verkefnið var bara of stórt."

„Við vorum því miður ekki með fullan fókus á leikinn. Við létum dómarana fara alltof mikið í taugarnar á okkur. Dómgæslan fannst mér hræðileg í leiknum, af því maður var svo pirraður. Núna þegar leikurinn er búinn var örugglega ekkert að henni. Við pirruðum okkur á hverjum einasta dómi og orkan sem átti að fara í að rífa sig upp af rassgatinu fór í pirring. Þetta var ein allsherjar krísa."

„Þó að það sé reynsla í þessu liði lentum við í því að fara að gera alltof mikið sjálfir þegar illa gekk, við fórum að stytta sóknirnar í staðinn fyrir að lengja þær og við fórum að skjóta verr sem Birkir átti ekki í erfiðleikum með.

„Þeir þrykktu okkur aftur niður á jörðina. Ég var búinn að segja það einhversstaðar að þetta yrði prófsteinn á liðið og við þurfum að fara í upptökupróf."

„Munurinn á liðunum er sá að þeir höndla greinilega stærri leikina, þeir eru vanari þessu. Hjá okkur er greinilega of langt síðan menn voru undir einhverri pressu, það er ljótt að segja það. En vonandi höldum við áfram að vinna í deildinni til að fá fleiri svona leiki," sagði Jónatan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×