Fótbolti

Drillo er búinn að eyðileggja norskan fótbolta í 20 ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Egil "Drillo" Olsen er sérstakur karakter.
Egil "Drillo" Olsen er sérstakur karakter. Mynd/AFP

Það eru ekki allir jafnglaðir yfir því að Egil "Drillo" Olsen sé aftur orðinn landsliðsþjálfari Noregs. Olsen tók tímabundið við norska landsliðinu á meðan norska sambandið leitar eftirmanns Åge Hareide.

Einn af hans hörðustu gagnrýnendum er Erik "Panzer" Hagen sem er 33 ára varnarmaður sem lék 28 landsleiki fyrir Noreg á árunum 2002-2007. Eftir harðort viðtal við norska blaðið Aftenposten er ljóst að landsleikir Hagen verða ekki fleiri á meðan "Drillo" er við stjórnvölinn, ekki af því að "Drillo" sé í fýlu heldur af því að Hagen myndi neita að spila fyrir hann.

"Ég einbeiti mér bara að því að spila fyrir Vålerenga. Landsliðið kemur heldur ekki til greina þegar "Drillo"er þjálfari því ég myndi aldrei spila fyrir hann," sagði Hagen og þegar hann er spurður af hverju stendur ekki á svarinu. "Hann er búinn að eyðileggja norskan fótbolta í 20 ár og nú er hann byrjaður aftur. Allur leikur hans liða snýst um að eyðileggja fyrir andstæðingnum," segir Hagen sem þótti ekki mikið til sigurs á Þjóðverjum koma.

Í fyrsta leiknum undir stjórn Drillo vann norska landsliðið sinn fyrsta sigur á Þjóðverjum síðan á Ólympíuleikunum í Berlín árið 1936. Norska landsliðið tapaði aðeins 14 af 91 leik undir stjórn Egil "Drillo" Olsen á árunum 1990 til 1998 og markatalan var 181-63 norska landsliðinu í vil.

Hagen er nú aftur kominn til Vålerenga þar sem hann spilaði 113 leiki á árunum 2000-2004 en frá 2005 til 2008 lék hann með liði Zenit St. Petersburg í Rússlandi. Hann lék einn í láni með enska liðinu Wigan en er nú aftur kominn heim til Noregs.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×