Viðskipti erlent

Credit Agricole kaupir innlán Kaupþings í Belgíu

Belgíski bankinn Credit Agricole hefur fest kaup á belgískum innlánsreikingum Kaupþings í Lúxemborg. Tilkynning um málið barst frá Credit Agricole um málið í dag.

Bankinn mun í fyrstu taka yfir innlánsreikninga 5.000 Belga hjá Kaupþingi í Belgíu. Í framhaldi af því mun bankinn svo fá til sín 16.000 netreikninga Belga hjá Kaupþingi í Lúxemborg.

Fram kemur í tilkynningunni að fyrrgreindir reikningar verði ekki opnaðir að nýju fyrr en í lok mars þegar endurreisn Kaupþings í Lúxemborg á að vera lokið.

Í frétt um málið á Reuters kemur fram að orðrómur hafi lengi verið í gangi um að Keytrade Bank, sem er netbanki Credit Agricole, myndi taka yfir netreikningana frá Kaupþingi.

Credit Agricole er að hálfu í eigu belgískra banka og að hálfu í eigu franska stórbankans Credit Agricole.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×