Stöngin hefur ekki verið besti vinur Veigars Páls Gunnarssonar í leikjum Íslands gegn Noregi í undankeppni HM. Í báðum leikjunum skaut hann í stöngina og út þegar hann átti möguleika á að tryggja Íslandi sigur.
„Þetta er ótrúlegt. Þú getur ekki ímyndað þér hvað ég er svekktur," sagði Veigar við blaðamann eftir leikinn í kvöld. „Ég var búinn að segja það fyrir leikinn að ég ætlaði að skora í stöngina og inn en aftur var það stöngin út."
„Ég bara trúði þessu ekki. Það er langt síðan ég spilaði fótbolta, við spiluðum vel og vildum vinna leikinn. Við áttum fyllilega skilið að vinna og þarna fékk ég tækifæri til að klára þetta fyrir strákana. En því miður fór boltinn út og það er bara hræðilegt."
„Það er ótrúlegt að við skoruðum bara eitt mark. Við fengum fullt af færum. Ég er samt gríðarlega sáttur við spilamennsku liðsins í heild. Við vorum klárlega betra liðið á vellinum og komum mörgum á óvart," sagði Veigar.
Veigar kom inn sem varamaður í lok leiksins. „Það var rosalega gaman að fá að spila þó það hafi bara verið í fimm mínútur um það bil. En aðalatriðið er bara hvað við spiluðum flottan fótbolta."