Eftir að breski hnefaleikakappinn David Haye þurfti að draga sig út úr bardaga gegn Wladimir Klitschko um miðjan júní vegna meiðsla hefur gengið illa hjá honum að skipuleggja annað tækifæri í hringnum gegn annað hvort Wladimir eða Vitali Kitschko. Haye átti upphaflega að mæta Vitali um miðjan júní en Wladimir hljóp í skarðið fyrir bróður sinn áður en Haye varð svo að hætta við.
Haye hefur líst því yfir að hann ætli sér að vinna báða Klitschko-bræðurna og sé tilbúinn að mæta þeim hvar og hvenær sem er.
„Okkur er alveg sama hvar bardaginn verður haldinn svo framarlega sem boðið verði upp á hnefaleikahring. Það er mikill vilji af okkar hálfu en lítið að gerast í þessu í augnablikinu," segir Adam Booth þjálfari Haye um möguleikann á að Haye mæti bræðrunum.
Bræðurnir eru sagðir komnir með nóg af yfirlýsingagleði Haye en sögusagnir herma þó að Vitali sé hugsanlega tilbúinn að mæta Haye á nýjum leikvangi Shakhtar Donetsk í Úkraínu í september á þessu ári.