Nobert Haug yfirmaður hjá Mercedes liðinu telur að Nico Rosberg sé klár í toppslaginn, en vill hvorki játa né neita því hvort Michael Schumacher mæti aftur í Formúlu 1 með Mercedes á næsta ári.
"Ég hef fylgst með ferli Nico Rosberg frá því hann var barnungur og hann ók í ýmsum mótaröðum með vélar frá Mercedes. Hann var stjarna í ölumm flokkum og stóð sig geysilega vel með Williams á þessu ári", sagði Haug.
Rosberg var staðfestur sem ökumaður Mercedes í gær, en mikil umræða er um hvort Schumacher verður liðsmaður Mercedes líka. Rosberg vildi ekkert tjá sig um málið og Haug fór undan í flæmingi þegar hann var spurður að því á blaðamannafundi.
"Við verðum að lifa með þessari umræðu og ég get hvorki játað né neitað hugmyndinni. Það hefur aldrei verið hægt í Formúlu 1", sagði Haug, en Ross Brawn framkvæmdarstjóri Mercedes vill meina að umræða sé fantasía fjölmiðlamanna.