Viðskipti erlent

Belgíska stjórnin samþykkir Kaupþingssjóð

Ríkisstjórn Belgíu samþykkti í dag að stofna sérstakan tryggingarsjóð fyrir innistæðueigendur hjá Kaupþingi í Lúxemborg. Munu belgísk stjórnvöld veita 75 til 100 milljónum evra eða allt að tæplega 17 milljörðum kr. til sjóðsins.

Didier Reynders fjármálaráðherra Belgíu segir í samtali við þarlenda fjölmiðla að um einstaka ákvörðun sé að ræða þar sem Kaupþingsbankinn sé staðsettur í Lúxemborg en ekki Belgíu.

"Við tókum þessa ákvörðun vegna sambands okkar við Lúxemborg og vegna þess að um 20.000 Belgar eiga reikninga í bankanum," segir Reynders.

Þetta þýðir að fari svo að Kaupþing í Lúxemborg verði gjaldþrota munu innistæður Belga þar verða tryggðar að allt að 100.000 evrum á hvern reikning.

Þetta þýðir einnig að samningaviðræður um kaup fjárfestingarsjóðs í eigu Líbýu á Kaupþingi í Lúxemborg hefjast á nýju en þeim var frestað eftir að ríkisstjórn Belgíu féll fyrir áramótin.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×