Fótbolti

Ólafur Ingi og félagar töpuðu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Ingi og félagar í Helsingborg voru ekki á skotskónum í dag.
Ólafur Ingi og félagar í Helsingborg voru ekki á skotskónum í dag. Nordic Photos / AFP

Þó nokkrum leikjum er lokið í Svíþjóð og Noregi í dag þar sem Íslendingar komu við sögu.

Ólafur Ingi Skúlason og félagar í Helsingborg töpuðu 3-0 fyrir Örgryte sem á í bullandi fallbaráttu í sænsku úrvalsdeildinni í dag. Ólafur Ingi lék allan leikinn fyrir Helsingborg sem er í fimmta sæti deildarinnar, tólf stigum á eftir toppliði AIK.

Þá tapaði GIF Sundsvall fyrir Ljungskile á heimavelli, 3-0, í sænku B-deildinni. Ari Freyr Skúlason var í byrjunarliði Sundsvall en Hannes Þ. Sigurðsson er frá vegna meiðsla.

Gunnar Þór Gunnarsson lék allan leikinn fyrir Norrköping sem vann 1-0 sigur á Janköping í sömu deild. Þetta var afar mikilvægur sigur hjá Norrköping sem kom sér fimm stigum frá fallsæti með sigrinum.

Vonir Sundsvall um að komast upp um deild veiktust hins vegar talsvert með tapinu í dag. Liðið er nú sjö sætum frá öðru sæti deildarinnar.

Þá lék Viktor Bjarki Arnarsson allan leikinn fyrir Nybergsund sem tapaði, 3-2, fyrir Löv-Ham í norsku B-deildinni í dag eftir að hafa komist 2-0 yfir í leiknum. Nybergsund er í sjötta sæti deildarinnar með 39 stig og enga möguleika á að komast upp um deild.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×