Körfubolti

Grindvíkingar fyrstir til að leggja KR

Elvar Geir Magnússon skrifar
KR-ingar voru lagðir að velli í Grindavík í kvöld.
KR-ingar voru lagðir að velli í Grindavík í kvöld.

Grindavík varð í kvöld fyrsta liðið til að leggja KR á tímabilinu, liðið vann með ellefu stiga mun 91-80. Um leið náði liðið að minnka forskot Vesturbæjarliðsins niður í tvö stig í Iceland Express-deildinni.

Grindvíkingar voru með 50-44 forystu í hálfleik og þrettán stigum yfir fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Þar náðu KR-ingar að saxa vel á forskot heimamanna og spennan var orðin rafmögnuð.

Páll Axel Vilbergsson skoraði glæsilega þriggja stiga körfu þegar um mínúta var eftir og kom Grindavík í 85-78. Þorleifur Ólafsson tróð síðan boltanum í körfuna rétt á eftir og heimamenn fögnuðu innilega. Staðan 91-80 þegar leiktíminn rann út.

Leikurinn var gríðarlega fjörugur og skemmtilegur en vel var mætt hjá stuðningsmönnum beggja liða og íþróttahúsið í Grindavík fullt.

Stigahæstur í liði Grindavíkur var Páll Axel með 20 stig en Þorleifur var með 19 stig. Hjá KR var Jón Arnór Stefánsson með 21 stig en Jason Dourisseau 19.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×