Formúla 1

Toyota yfirgefur Formúlu 1

Formúlu 1 lið Toyota verður ekki á ráslínunni á næsta ári, eftir að stjórn fyrirtækisins tilkynnti í morgun að fjármagni verður ekki miðlað til liðsins. Toyota var búið að skrifa undir samning þess efnis að lið þess yrði í Formúlu 1 til 2012.

Á örfáum árum hafa því þrír bílaframleiðendur dregið sig út úr myndinni. Fyrst Honda í Japan, síðan BMW á þessu ári og loks Toyota. Ákvörðun Toyota manna er bagaleg fyrir íþróttina, en þýðir samt sem áður að nýtt lið kemst á ráslínuna á næsta ári, en Sauber Ferrari með búnað BMW liðsins verður meðal þátttakenda. Verða 26 ökumenn á ráslínunni í stað 20 í ár, þrátt fyrir ákvörðun Toyota.

Talið er að erfiður rekstur Toyota sé ástæðan fyrir ákvörðun stjórnarinnar og ljóst að störf hátt í þúsund starfsmanna í Köln í Þýskalandi er í hættu, en Formúlu 1 liðið er með bækistöð sína þar í landi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×