Körfubolti

Stjörnumenn bæta við sig tveimur leikmönnum í körfunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Jónas Sigurðsson.
Ólafur Jónas Sigurðsson. Mynd/Daníel
Stjörnumenn hafa fengið góðan liðstyrk fyrir lokasprettinn í körfunni því liðið hefur endurheimt bakvörðinn Ólaf Jónas Sigurðsson frá Danmörku og nælt sér í 206 serbneskan miðherja að auki. Þetta kom fram á karfan.is í dag.

Djordje Pantelic er 26 ára og 206 miðherji sem lék síðast með rúmenska liðinu Steua Turabo í Búkarest. „Hann lítur vel út, er stór og sterkur og góður inni í teig en getur líka farið út fyrir og skotið," sagði Gunnar Kristinn Sigurðsson formaður Körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar í samtali við Karfan.is.

Ólafur Jónas Sigurðsson er uppalinn ÍR-ingur en hann lék með Stjörnunni áður en hann fór til Danmerkur og spilaði Aabyhøj. Ólafur var með 5,4 stig og 2,3 stoðsendingar að meðaltali á 24,0 mínútum í dönsku deildinni.

Ólafur kemur ekki til landsins fyrr en eftir helgi en Djordje Pantelic mun spila sinn fyrsta leik í kvöld þegar Stjarnan sækir FSu heim í Iðu á Selfossi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×