Handbolti

Guðmundur íþróttastjóri hjá AG - Arnór og Snorri með AG

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Mynd/DIENER

Núna rétt í þessu hófst blaðamannafundur í Bröndby þar sem tilkynnt er að Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari Íslands, í handknattleik hafi verið ráðinn íþróttastjóri hjá danska ofurliðinu AG Köbenhavn.

Liðið er styrkt af danska skartgripajöfurnum Jesper Nielsen og hann ætlar sér að koma danska liðinu í fremstu röð í Evrópu. Ráðningin á Guðmundi er stór liður í þeirri áætlun Danans.

Guðmundur skrifar undir tveggja ára samning við AG.

Íslenski landsliðsþjálfarinn verður sérstakur ráðgjafi þjálfara liðsins og verður þeim innan handar ef svo ber undir. Hann mun einnig sjá um leikmannamál liðsins.

Tveir Íslendingar munu spila með danska ofurliðinu AG Köbenhavn næsta vetur. Það eru þeir Arnór Atlason og Snorri Steinn Guðjónsson. Arnór er búinn að skrifa undir samning við félagið en Snorri hefur náð samkomulagi og á aðeins eftir að skrifa undir samning.

Fjöldi stjarna verður á mála hjá félaginu sem er nýtt enda sameinast FCK og AG Handbold undir nafni AG Köbenhavn.

Á meðal stjarna liðsins eru leikmenn eins og Mikkel Hansen, Joachim Boldsen og Kasper Hvidt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×