Handbolti

Verða Ólafur Stefáns og Nicola Karabatic í Köben á næsta ári?

Arnar Björnsson skrifar
Nicola Karabatic skorar gegn Íslandi á EM í ársbyrjun án þess að Ólafur Stefánsson og Alexander Petersson koma vörnum við.
Nicola Karabatic skorar gegn Íslandi á EM í ársbyrjun án þess að Ólafur Stefánsson og Alexander Petersson koma vörnum við. Mynd/DIENER

Danska handboltaliðið AG í Kaupmannahöfn stefnir á meistaradeildina á næstu leiktíð. Eigandinn, hinn moldríki, Jesper Nielsen, hefur þegar eytt milljónum króna í að búa til sterkt lið og ætlar greinilega að halda því áfram.

Í samtali við danska sjónvarpið segir Nielsen að þegar markmiðinu um meistaradeildarsæti sé náð þurfi að styrkja liðið enn meira. Nielsen segir að Ólafur Stefánsson spili með AG en hvenær nákvæmlega það verður er ekki frágengið.

Nielsen á nefnilega handboltaliðið Rhein Neckar Löwen sem Ólafur spilar með þessa dagana. Og Óli er ekki sá eini sem gæti endað í AG. Nikola Karabatic, sem í mörg ár hefur verið talinn einn besti handboltamaður heims hefur verið orðaður við AG.

Karabatic er aðeins 26 ára en hefur unnið 7 verðlaun á stórmóti, þar af 4 gull. Karabatic yfirgaf Kiel og fór til síns gamla liðs, Montpellier í Frakklandi.

Fyrir í AG eru íslensku víkingarnir Snorri Steinn Guðjónsson og Arnór Atlason. Forystumenn danskra handboltaliða horfa öfundaraugum á AG-liðið sem nýtur gildra sjóða Jespers Nielsen á meðan önnur lið þurfa að skrapa saman til þess að láta enda ná saman.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×