Handbolti

Björgvin: Basl á sókninni hjá okkur

Henry Birgir Gunnarsson á Ásvöllum skrifar

Björgvin Þór Hólmgeirsson, leikmaður Hauka, var ekki sáttur eftir fjögurra marka tap Íslandsmeistaranna á heimavelli, 27-31, gegn Fram í N1-deild karla í kvöld.

Björgvin var allt í öllu í sóknarleik Hauka og í rauninni eini sóknarmaður liðsins sem lék af einhverju viti í kvöld.

"Þetta var ekki nógu gott. Við sýndum þó karakter með þvi að koma til baka í seinni hálfleik og jafna. Þá missum við hausinn aftur. Af hverju veit ég ekki," sagði Björgvin svekktur en hann skoraði 11 mörk í kvöld.

"Þegar við lentum með bakið upp við vegginn fórum við að lemja aftur frá okkur og sýna "Hauka-killerinn". Við dettum svo allt of mikið niður er við gerum mistök. Við erum með unga leikmenn sem eru mjög góðir á góðum degi og þeir munu finna sig."

Sóknarleikur Hauka var átakanlega lélegur í kvöld og engin skotógnun af neinum nema Björgvini.

"Það er hrikalegt basl á sókninni og við erum í vandræðum þegar við þurfum að stilla mikið upp. Ég er kannski að reyna of mikið og þarf að koma hinum meira inn í leikinn. Ég veit það ekki."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×