Handbolti

Haukar unnu níu marka stórsigur á FH í Krikanum

Elvar Geir Magnússon skrifar
Þórður Rafn Guðmundsson skoraði átta mörk í kvöld.
Þórður Rafn Guðmundsson skoraði átta mörk í kvöld.

Haukar jöfnuðu FH að stigum með því að vinna sigur í Hafnarfjarðarslagnum í Kaplakrika í kvöld, lokastaðan 16-25. Þeir lögðu grunninn að sigrinum með því að skora sjö mörk í röð í kringum hálfleikinn.

Það var mikil stemning í Hafnarfirðinum í kvöld, áhorfendur sátu þétt saman og létu vel í sér heyra. FH skoraði tvö fyrstu mörk leiksins en Haukar náðu forystunni í fyrsta sinn með því að skora þrisvar í röð og staðan 4-5.

Leikurinn var í járnum framan af fyrri hálfleik en í stöðunni 8-8 hrundi leikur heimamanna. Haukar komust yfir 15-8 þar sem miklu munaði um góð markvörslu Birkis Ívars Guðmundssonar.

Þá vöknuðu FH-ingar aðeins til lífsins á ný og komu í veg fyrir að gestirnir myndu algjörlega stinga þá af strax. En Haukar voru með leikinn í öruggum höndum og unnu fyllilega verðskuldaðan sigur.

Þórður Rafn Guðmundsson var markahæstur hjá Haukum með átta mörk og þeir Guðmundur Árni Ólafsson og Freyr Brynjarsson skoruðu fimm.

Fyrir FH voru þeir Ásbjörn Friðriksson og Ólafur Guðmundsson með fjögur mörk hvor. Birkir Ívar Guðmundsson varði 20 skot hjá Haukum en hinumegin var Pálmar Pétursson með 13 skot varin.

Frekari umfjöllun og viðtöl koma inn á Vísi seinna í kvöld.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×