Fótbolti

Edda og Ólína í bikarúrslit

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Edda lagði upp fyrra mark Örebro í kvöld.
Edda lagði upp fyrra mark Örebro í kvöld. Mynd/Ossi Ahola

Það verður Íslendingaslagur í úrslitum sænsku bikarkeppninnar í ár en Örebro, lið Eddu Garðarsdóttur og Ólínu Guðbjargar Viðarsdóttur, tryggði sér í kvöld sæti í úrslitaleiknum með 2-1 sigri á Linköping eftir framlengingu.

Örebro mætir Djurgarden í úrslitum en í marki þess liðs stendur Guðbjörg Gunnarsdóttir.

Örebro náði forystunni í leiknum með marki Sanna Talonen á 38. mínútu en Edda lagði upp markið fyrir hana.

Louise Fors jafnaði leikinn fyrir Linköping á 56. mínútu og meira var ekki skorað í venjulegum leiktíma.

Marie Hammarström tryggði Örebro svo sigurinn þegar aðeins tvær mínútur voru eftir af framlengingunni.

Þær Edda og Ólína munu því spila sinn fimmta bikarúrslitaleik á aðeins sex árum.

Þær spiluðu með Blikum 2005 og unnu, fóru með KR í úrslit 2006, 2007 og 2008 og unnu árin 2007 og 2008.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×