Körfubolti

Teitur Örlygsson: Ég held að Nonni komi til baka í þessum leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar
Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar Mynd/Valli
KR og Snæfell leika í kvöld hreinan úrslitaleik um sæti í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í Iceland Express deild karla í körfubolta. Vísir fékk Teit Örlygsson, þjálfara Stjörnunnar til þess að spá í leik kvöldsins sem hefst klukkan 19.15 í DHL-höllinni í Frostaskjóli og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

„Ég spáði upphaflega Snæfelli 3-1 sigri en það er farið víst að KR vann þennan frábæra sigur í síðasta leik," segir Teitur:

„Það er ómögulegt að segja um hvort liðið vinnur þetta því þetta útivallarrugl er að ná nýjum hæðum í þessari úrslitakeppni," segir Teitur en allir fjórir leikir einvígi KR og Snæfells og sjö af átta leikjum undanúrslitanna hafa unnist á útivelli.

„Þetta verður eins og fjórði leikurinn milli Njarðvík og Keflavík og þetta ræðst bara á síðustu mínútunni. Í þeim leik var það eitt skot frá Burns sem gerði útslagið og það væri rosalega gaman ef að það yrði svoleiðis aftur," segir Teitur.

„Ég segi að Snæfelli vinni þennan leik. Ég held að Nonni (Jón Ólafur Jónsson) komi til baka í þessum leik og setji niður stórar körfur fyrir Snæfelli eftir að hafa átt slæman dag í síðasta leik," segir Teitur en Jón Ólafur Jónsson klikkaði á öllum 9 skotum sínum í fjórða leiknum.

„Það er fullt af mönnum í báðum liðum sem hafa kjarkinn og þorið í að vera hetjur í þessum leik. Þetta ræðst mikið á varnarleik og frákastabaráttu og svo fær einhver tækifæri á þessu síðasta skoti. Ég vona að þetta verði spennandi en ég ætla að halda mig áfram við Snæfell," sagði Teitur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×