Körfubolti

Boston komið í 2-0

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dwight Howard eftir leikinn í nótt.
Dwight Howard eftir leikinn í nótt. Nordic Photos / Getty Images

Boston Celtics er komið hálfa leið í úrslit NBA-deildarinnar eftir að hafa unnið tvo fyrstu leikina í úrslitum Austurstrandarinnar gegn Orlando og báða á útivelli.

Boston vann leik liðanna í nótt, 95-92. Paul Pierce skoraði 28 stig fyrir Boston og Rajon Rondo var með 25 stig og átta stoðsendingar.

En það var fyrst og fremst varnarleikur Boston sem gerði útslagið í leiknum. Orlando var aðeins með 39 prósenta skotnýtingu og þeir Rashard Lewis og Jameer Nelson náðu sér engan veginn á strik.

Næstu tveir leikir fara fram á heimavelli Boston og þarf Orlando að vinna annan þeirra til halda sér á lífi og reyna að vinna minnst einn leik á heimavelli.

Boston var með undirtökin í leiknum en Orlando fékk gott tækifæri til að stela sigrinum undir lokin.

Vince Carter klúðraði hins vegar tveimur vítaköstum þegar hálf mínúta var til leiksloka og þó svo að Boston hafi ekki skorað úr næstu sókn var of naumur tími til stefnu fyrir heimamenn. Þeir komu ekki almennilegu skoti að körfunni á lokasekúndum leiksins.

Dwight Howard skoraði 30 stig fyrir Orlando og þeir Carter og JJ Redick voru með sextán hvor.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×