Handbolti

HK-ingar úr leik í Evrópukeppninni eftir fimmtán marka tap

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Stefán
HK er úr leik í Evrópukeppni bikarhafa eftir tvö töp á móti rússneska liðinu Kaustik. HK lék báða leikina í Rússlandi um helgina, sá fyrri tapaðist með fimm mörkum og HK-liðið tapaði síðan með 15 marka mun í seinni leiknum, 24-39, sem var að klárast.

Hákon Hermannsson Bridde og Ólafur Bjarki Ragnarsson skoruðu báðir fimm mörk fyrir HK og Bjarki Már Elísson var með fjögur mörk.

HK-liðið var greinilega búið á því í seinni leiknum í dag því liðið átti aldrei möguleika eftir fyrstu fimmtán mínúturnar. Erfitt ferðalag til Rússlands sem og leikurinn í gær var búið að taka sinn toll af liðinu.

HK-liðið var með frumkvæðið framan af leik og meðal annars 7-6 yfir þegar þrettán mínútur voru liðnar. Kaustik skoraði þá fjögur mörk í röð og var síðan komið sex mörkum yfir í hálfleik, 17-11.

Kaustik skoraði fyrstu tvö mörk seinni hálfleiks og var komið tíu mörkum yfir eftir rúmlega átta mínútna leik. Kaustik hélt áfram sínu striki og vann að lokum fimmtán marka sigur.

HK-ingar geta því farið að einbeita sér að N1 deildinni en framundan er toppslagur á móti Akureyri fyrir norðan á fimmtudaginn.

HK-Kaustik 24-39 (11-17)

Mörk HK: Hákon Hermannsson Bridde 5, Ólafur Bjarki Ragnarsson 5, Bjarki Már Elísson 4, Atli Ævar Ingólfsson 3, Daníel Berg Grétarsson 3, Björn Þórsson Björnsson 2, Atli Karl Bachman 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×