Fótbolti

Verkfallið hjá Kristianstad úr sögunni - byrjuðu að æfa aftur í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir og félagar mættu aftur til æfinga í gær.
Margrét Lára Viðarsdóttir og félagar mættu aftur til æfinga í gær. Mynd/ÓskarÓ
Leikmenn Íslendingaliðsins Kristianstad í sænsku kvennadeildinni í fótbolta hófu aftur æfingar í gær eftir fimm daga verkfall. Liðið fór í verkfall þar sem leikmenn og þjálfarar höfðu ekki fengið laun sín greidd.

Þjálfari Kristianstad-liðsins er Elísabet Gunnarsdóttir og með liðinu leika einnig Margrét Lára Viðarsdóttir, Guðný Björk Óðinsdóttir og Erla Steina Arnardóttir.

Kristianstadsbladet segir frá því í dag að laun leikmanna verði greidd í vikunni og að leikmennirnir hafi mætt aftur á æfingu klukkan 17.00 í gær. Næsti leikur liðsins er gegn Tyresö á sunnudag.

Verkfallið hjá Kristianstad vakti mikil viðbrögð í Kristianstad og auk þess að fá nýja styrktaraðila þá hefur félaginu borist meðal annars nafnlaust bréf með 500 sænskum krónum eða tæplega tíu þúsund íslenskum krónum. Fyrirmælin í bréfinu voru að þessa peninga átti að nota til að borga ógreidd laun leikmanna liðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×