Körfubolti

Njarðvíkingar gefa Keflavík leyfi til að nota Nick Bradford

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nick Bradford í leik með Njarðvík á móti Keflavík í úrslitakeppninni.
Nick Bradford í leik með Njarðvík á móti Keflavík í úrslitakeppninni. Mynd/Vilhelm
Keflvíkingar hafa fengið leyfi frá Njarðvík til þess að nota Nick Bradford það sem eftir lifir af úrslitaeinvíginu á móti Snæfelli en bandaríski leikmaður liðsins, Draelon Burns, er meiddur.

Guðjón Skúlason, þjálfari Keflavíkur, vildi ekki gefa það formlega út að hann væri búinn að skipta um kana fyrr en eftir æfingu í kvöld. Keflavík er hinsvegar búnir að ganga frá öllum leyfum, bæði hjá KKÍ og Njarðvík og það er því ekkert því til fyrirstöðu að Nick spili þriðja leik úrslitaeinvígisins sem er í Keflavík á morgun.

„Hann er með samning við okkur en hann kemur til með að spila með Keflavík. Ég reikna með því. Þeir eru búnir að hafa samband við mig," sagði Jón Guðlaugsson, formaður körfuboltadeildar Njarðvíkur í samtali við Vísi.

„Okkur dettur ekki í hug að fara að bregða fæti fyrir hvorki Keflvíkinga eða einhverja aðra ef við getum eitthvað lagt þeim lið. Þetta gerir bara íþróttina skemmtilegri," segir Jón og bendur á að Snæfellingar hafi einnig fengið til sín leikmann sem spilaði með Njarðvík.

Jeb Ivey spilaði í gær sinn fyrsta leik á Íslandi síðan að hann spilaði með Njarðvík vorið 2007.

„Það er gott að Snæfellingar skyldu fá svona góðan leikmann líka. Hann spilaði í tvö ár í Njarðvík. Þetta eru báðir frábærir einstaklingar og bara gaman að því að þetta skyldi gerast með þessum hætti," sagði Jón.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×