Fótbolti

Follo-ævintýrið í norska fótboltanum endar ekki vel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
B-deildarliðið Follo komst alla leið í bikarúrslitaleikinn í Noregi í ár eftir magnaðan 3-2 sigur á Rosenborg í undaúrslitaleiknum. Þrátt fyrir þennan frábæra árangur er framtíð félagsins ekki björt.

Follo fær nefnilega ekki keppnisleyfi frá norska knattspyrnusambandinu á næsta tímabili vegna slæmrar fjárhagsstöðu en eiginfjárhagstaða félagsins var 3,5 milljónir norskra króna í mínus 30. júní síðastliðinn.

Follo situr í fallsætinu fyrir lokaumferðina en það dugar liðinu skammt að bjarga sæti sínu í deildinni því hvernig sem fer verður liðið dæmt niður í 2. deild þar sem félög í Noregi fá ekki keppnisleyfi ef þau standa ekki nógu vel að rekstrinum.

Follo á eftir að spila tvo leiki á þessu tímabili, mætir Moss í lokaumferðinni í deildinni og spilar svo bikarúrslitaleikinn á móti Garðari Jóhannssyni og félögum í Strømsgodset.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×