Handbolti

Einar með þrjú í góðum útisigri Ahlen-Hamm

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Einar Hólmgeirsson.
Einar Hólmgeirsson. Mynd/Stefán
Einar Hólmgeirsson er byrjaður að spila á ný eftir meiðsli og skoraði þrjú mörk fyrir Aheln-Hamm sem vann góðan tveggja marka sigur á Lübbecke í þýsku úrvalsdeildinni í dag, 34-32.

Þórir Ólafsson var markahæstur í liði Lübbecke með sjö mörk en það dugði ekki til. Lübbecke hefði yfirhöndina í hálfleik, 16-14.

Einar skoraði mörkin sín þrjú á fyrstu tíu mínútunum í síðari hálfleik en leikurinn var jafn og spennandi allt fram á síðustu mínútu.

Lübbecke hafði forystu, 32-31, þegar tæpar þrjár mínútur voru til leiksloka en Ahlen-Hamm jafnaði og skoraði sigurmarkið þegar tíu sekúndur voru til leiksloka.

Þá var einnig spilað í Evrópukeppnunum í handbolta í dag. Álaborg gerði jafntefli við Valladolid á útivelli, 33-33. Ingimundur Ingimundarson leikur með Álaborg.

Þeir Hlynur Leifsson og Anton Gylfi Pálsson dæmdu leikinn sem fór fram á Spáni.

Valladolid er á toppi riðilsins með tíu stig en Álaborg í fjórða sætinu með fjögur.

HK Drott, lið Gunnars Steins Jónssonar, komst áfram í 16-liða úrslit Evrópukeppni bikarhafa þrátt fyrir tap fyrir svissneska liðinu Pfadi Winterthur í dag, 27-26. Drott vann fyrri leikinn á heimavelli með þriggja marka mun og vann því samanlagt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×