Skoðun

Umhyggja í stað ofbeldis

Fréttin af aðförinni að kúbversku feðgunum vekur óhug. Það að þeir, og að því er fullyrt er, fleiri innflytjendur, hafi neyðst til að flýja land vegna ofsókna og áreitis er skelfileg og óþolandi smán fyrir samfélag okkar.

Þjóðflutningar einkenna heiminn okkar og auðga menningu og samfélag, líka okkar eigið. Við eigum að meta það og virða það fólk sem hér sest að. Biblían leggur áherslu á gestrisni í garð framandi fólks og hvetur okkur til að koma fram við útlendinginn af virðingu og á jafnræðisgrunni.

Íslendingar eru innflytjendur í landi sínu. Þegar við erum spurð: Hvaðan ertu? þá munu flest okkar þurfa að viðurkenna að það er ekki einföld spurning og ættartréð leiðir í ljós flóknari uppruna en við blasir í fyrstu. Mörg okkar eiga ættingja í öðrum löndum og höfum notið gestrisni framandi þjóða.

Samt virðist ríkja hér tortryggni gagnvart þeim útlendingum sem setjast að. Að ungt fólk á Íslandi skuli daðra við fordóma og hatur og ganga til liðs við ofbeldismenn til að klekkja á öðru fólki, eins og hér virðist hafa gerst, er grafalvarlegt. Við sem fullorðin erum berum þar mikla ábyrgð. Svo margt í okkar menningu og samskiptum hefur borið vitni um agaleysi, ábyrgðarleysi og virðingarleysi í orðum og athöfn. Virðingarleysið getur af sér kaldhæðni og kaldhæðnin nærir reiði, fyrirlitningu og hatur. Það er samfélagsmein.

Okkur ber skylda til að vinna gegn því hugarfari og afstöðu. Við eigum að láta það heyrast hátt og skýrt að kynþáttahatur, tortryggni gagnvart útlendingum, já og fordómar gegn trúarbrögðum verði ekki liðið á Íslandi. Öll eigum við hlutdeild í sömu mennsku. Okkur ber skylda til að stuðla að bættri vellíðan, lífsgæðum og mannréttindum allra sem í landinu okkar búa og dvelja, að styðja við hælisleitendur og verja réttindi þeirra. Þeirri skyldu megum við ekki bregðast.




Skoðun

Sjá meira


×