Handbolti

Framkonur töpuðu seinni leiknum með sex mörkum og eru úr leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Einar Jónsson, þjálfari Fram.
Einar Jónsson, þjálfari Fram. Mynd/Stefán
Fram er úr leik í Áskorendakeppni Evrópu eftir sex marka tap á móti Metalurg, 15-21, í seinni leik liðanna í átta liða úrslitum sem fram fór í Skopje í Makedóníu. Fram vann fyrri leikinn með þremur mörkum á sama stað í gær en náði ekki að tryggja sér sæti í undanúrslitunum.

Metalurg byrjaði leikinn vel og var fljótlega komið fjórum mörkum yfir. Það var lítið skorað í fyrri hálfleik sem þýddi að Framliðið mátti ekki tapa með þremur mörkum því þá færi makedónska liðið áfram á mörkum skoruðum á útivelli. Fyrri leikurinn taldist nefnilega vera heimaleikur Fram.

Fram skoraði tvö síðustu mörk fyrri hálfleiks og minnkaði muninn í tvö mörk en staðan var 8-6 fyrir Metalurg í hálfleik. Metalurg skoraði þrjú mörk í röð um miðjan seinni hálfleik og breytti stöðunni úr 16-14 í 19-14 og þessi slæmi kafli reyndist vera banabiti Framstelpna.

Karen Knútsdóttir minnkaði munninn í 19-15 þegar átta mínútur voru eftir en það reyndist vera síðasta mark Fram í leiknum og Metalurg tryggði sér sæti í undanúslitunum með því að skora tvö síðustu mörk leiksins.

Mörk Fram í leiknum: Marthe Sördal 5, Karen Knútsdóttir 4/1, Ásta Birna Gunnarsdóttir 2, Pavla Nevarilova 2 og Sigurbjörg Jóhannsdóttir 2. Íris Björk Símonardóttir varði 20 skot, þar af 2 víti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×