KR er úr leik í Evrópukeppni félagsliða eftir tap í Úkraínu gegn Karpaty. Leiknum lauk með 3-2 sigri Úkraínumannanna en Kjartan Henry Finnbogason skoraði bæði mörk KR og jafnaði leikinn í 2-2.
Karpaty byrjaði með látum og skoraði strax á annarri mínútu. Staðan því orðin 4-0 í steikjandi hitanum í Úkraínu en honum var lýst beint í KR-útvarpinu.
Úkraínumennirnir réðu öll á vellinum og KR átti ekki færi í fyrri hálfleik. Heimamenn skoruðu þó aftur í fyrri hálfleik og leiddu 2-0. Kristinn Kjærnested, formaður knattspyrnudeildar KR, lýsti leiknum og sagði að Úkraínumennirnir hefðu refsað KR-ingum grimmilega.
KR-ingar sýndu þó fádæma baráttu og náðu að jafna leikinn. Kjartan Henry skoraði bæði mörkin um miðbik hálfleiksins. Vel gert hjá KR á erfiðum útivelli við erfiðar aðstæður.
En Karpaty skoraði svo skömmu síðar með skoti sem Kristinn sagði að Lars hefði átt að verja. KR fékk svo góð færi til að jafna, fyrst skaut Björgólfur Takefusa yfir og svo varði markmaður þeirra frábærlega frá Baldri Sigurðssyni, Smalanum.
Leikurinn fjaraði svo út og lauk með 3-2 sigri Karpaty, 6-2 samtals.
Gunnar Kristjánsson, sem hefur rætt við FH um vistaskipti í Kaplakrikann og mun halda þeim viðræðum áfram eftir förina, var í byrjunarliði KR. Hann fékk olnbogaskot í andlitið eftir 23. mínútur og fór meiddur af velli.
Kristinn sagði að um ljótt brot hefði verið að ræða og Gunnar væri með mölbrotið nef.
Íslenski boltinn