Handbolti

Harpa Sif: Langar til að öskra, gráta og brjóta eitthvað

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Árósum skrifar
Harpa Sif Eyjólfsdóttir. Mynd/Ole Nielsen
Harpa Sif Eyjólfsdóttir. Mynd/Ole Nielsen

Harpa Sif Eyjólfsdóttir, leikmaður Íslands, var grautfúl eftir leikinn gegn Svartfjallalandi á EM í handbolta í kvöld en Ísland tapaði leiknum, 26-23.

„Þetta er svo ótrúlega svekkjandi að mig langar helst til að öskra, gráta og brjóta eitthvað,“ sagði Harpa Sif við Vísi eftir leikinn.

„Það er hrikalega erfitt að þurfa að kyngja þessu því við vorum svo ótrúlega nálægt þessu. Við klúðruðum mörgum dauðafærum og það var mjög erfitt að hafa ekki gert betur í þeim.“

Ísland tapaði fyrir Króatíu í síðasta leik en Harpa segir að Svartfellingar eigi að vera með sterkara lið. Hins vegar hafi þeir hvílt nokkra lykilleikmenn í kvöld.

„Það á ekki að koma að sök því þær eru með svo mikið af góðum leikmönnum. En það er alveg ljóst að svona frammistaða hefði fleytt okkur langt gegn Króötunum og við hefðum strítt þeim mikið,“ sagði Harpa en Svartfjallaland vann Rússland, næsta andstæðing Íslands, í fyrstu umferðinni.

„Við erum svo alls ekki hættar. Næst eru það Rússarnir og við erum búnar að vera vitni af þvílíkum þrumuræðum rússneska þjálfarans upp á hóteli af fundum sem standa yfir í klukkutíma. Þær eru því örugglega viðkvæmar og það er alveg klárt að við eigum eitthvað inni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×