Fótbolti

Komast Edda og Ólína líka í bikaúrslitaleikinn?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Edda Garðarsdóttir fagnar hér marki með íslenska landsliðinu.
Edda Garðarsdóttir fagnar hér marki með íslenska landsliðinu.
Edda Garðarsdóttir og Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir eiga möguleika á að komast í bikarúrslitaleikinn í Svíþjóð þegar lið þeirra KIF Örebro mætir Linköpings FC í seinni undanúrslitaleiknum í dag.

Vinni Örebro-liðið er ljóst að það verður Íslendingaslagur í úrslitaleiknum því Guðbjörg Gunnarsdóttir og félagar í Djurgården eru komnar í úrslit eftir 2-1 sigur á nágrönnum sínum í Hammarby í hinum undanúrslitaleiknum sem fram fór fyrir helgi.

Leið Örebro í undanúrslitin hefur verið dramatísk því liðið vann Tyresö FF í framlengingu, Gideonsbergs IF eftir vítakeppni og loks 1-0 sigur á toppliði LdB FC Malmö í átta liða úrslitum með sigurmarki á 86. mínútu.

Þær Edda og Ólína þekkja það að verða bikarmeistarar saman því þær unnu bikarinn tvö síðustu tímabil sín með KR (2007 og 2008) og komust auk þess í bikaúrslitaleikinn fjögur síðustu sumurin sín á Íslandi.

Leikurinn hefst klukkan 19.00 eða klukkan 17.00 að íslenskum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×