Körfubolti

Tommy Johnson verður ekki með KR á móti ÍR á morgun - dæmdur í bann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stjörnumennirnir Magnús Helgason og Fannar Freyr Helgason halda aftur af Tommy Johnson í leik liðanna á dögunum.
Stjörnumennirnir Magnús Helgason og Fannar Freyr Helgason halda aftur af Tommy Johnson í leik liðanna á dögunum. Mynd/Valli

Tommy Johnson, framherji deildarmeistara KR, verður ekki með í fyrsta leiknum á móti ÍR í átta liða úrslitunum úrslitakeppninnar en einvígið hefst í DHL-höllinni á morgun. Tommy var í dag dæmdur í eins leiks bann af aga- og úrskurðarnefnd KKÍ.

Stjarnan kærði framkomu Tommy Johnson í leik Stjörnunnar og KR í Iceland Express-deild karla þann 12. mars síðastliðin og lagði fram myndbrot af atvikinu máli sínu til stuðnings. Dómarar leiksins sáu ekki atvikið og beittu engum refsingum í leiknum sjálfum.

"Tommy Johnsson, leikmaður KR hefur verið úrskurðaður í eins leiks bann. Telur nefndin því að hinn kærði hafi sýnt af sér háttsemi sem fellur undir ákvæði b. liðar 1. mgr. 13. gr. reglugerðar um aga- og úrskurðarmál," segir í frétt á heimasíðu KKÍ.

Tommy Johnson var með 17,0 stig og 3,8 fráköst að meðaltali í leik í deildarkeppninni í vetur en meðalskor hans lækkaði fjórða mánuðinn í röð í mars þar sem hann var "aðeins" með 11,3 stig að meðaltali í þremur leikjum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×