Körfubolti

Friðrik Ragnarsson: Hlynur Bæringsson er X-faktorinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Friðrik Ragnarsson, fráfarandi þjálfara Grindavíkur.
Friðrik Ragnarsson, fráfarandi þjálfara Grindavíkur. Mynd/Daníel
KR og Snæfell leika í kvöld hreinan úrslitaleik um sæti í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í Iceland Express deild karla í körfubolta. Vísir fékk Friðrik Ragnarsson, fráfarandi þjálfara Grindavíkur til þess að spá í leik kvöldsins sem hefst klukkan 19.15 í DHL-höllinni í Frostaskjóli og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

„Þetta verður svakalegur leikur, það er alveg ábyggilegt. Ég er búinn að fylgjast með þessum leikjum í seríunni. Lykillinn að sigri KR í síðasta leik var að þeir voru að láta litla bakvörðinn hafa fyrir því," segir Friðrik.

„Mér finnst stóru mennirnir hjá KR hafa spilað vel á móti Hlyn því hann er illviðráðanlegur. Ég held að að það sé lykillinn í þessum leik hvernig KR-ingum tekst að hefta Hlyn. KR er með svör við bakverðinum með því að setja stóra kannann sinn á hann en Morgan Lewis er mjög fljótur. Hann hentar Burton illa," segir Friðrik og bætir við:

„Ef KR nær að hemja Hlyn þá vinnur KR en ef Hlynur á stórleik þá vinnur Snæfell. Hlynur Bæringsson er X-faktorinn í þessum leik," segir Friðrik.

„Þetta er búin að vera mjög furðuleg sería en sýnir það jafnframt þegar þú ert kominn á þetta stig í keppninni þá er heimavöllurinn ekki aðalatriðið. Þetta er mestmegnis spurning um grimmd," sagði Friðrik og þegar hann var píndur í að spá svaraði hann: "KR vinnur þetta með tíu stiga mun," sagði Friðrik að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×