Búið er að selja tæplega 5.000 miða á leikinn gegn Norðmönnum á morgun. Leikurinn er sá fyrsti í undankeppni EM 2012. Laugardalsvöllur tekur alls 10.000 manns í sæti og því er rúmlega helmingur miðanna eftir.
Svo gott sem uppselt var á tvo af fjórum leikjum síðustu undankeppni, leikina gegn Skotlandi og Hollandi. Alls mætti 7.321 á leikinn gegn Noregi en 5.527 sáu eina sigurleik liðsins, gegn Makedóníu.
Dýrustu miðarnir á leikinn gegn Noregi kosta 5.000 krónur, í gömlu stúkunni. Miðar í hólf yst í henni eru ódýrastir, þeir kosta 2.000 krónur en miðar í nýju stúkuna kosta 3.500 krónur. Í forsölu er 500 króna afláttur af miðunum.
Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ, segir að miðar sem stuðningsaðilar KSÍ kaupi séu mun færri nú en áður. Þeir séu um 500 en voru áður næstum því helmingi fleiri. Ástæðan er fækkun stuðningsaðila sambandsins.
Forsölunni lýkur í dag en leikurinn er á morgun klukkan 19.00.
Íslenski boltinn