Fótbolti

Veigar Páll: Ætla að sýna það að Nancy hafði rangt fyrir sér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Veigar Páll Gunnarsson í landsleik.
Veigar Páll Gunnarsson í landsleik. Mynd/Anton
Veigar Páll Gunnarsson er kominn aftur til Stabæk eftir martröðina með Nancy í franska fótboltanum og um helgina er fyrsta umferð norsku úrvalsdeildarinnar. Veigar Páll var af því tilefni í viðtali hjá NTB, stærstu fréttastofunni í Noregi.

„Ég ætla að sýna það og sanna að Nancy hafði rangt fyrir sér," sagði Veigar Páll í viðtalinu. Hann fékk fá tækifæri hjá Nancy og skoraði ekki eitt einasta mark. Veigar Páll varð hinsvegar meistari með Stabæk þegar hann lék síðast með liðinu og fór þá á kostum með þeim Daniel Nannskog og Alanzinho.

„Við áttum örugglega þátt í meira en 50 mörkum saman þetta tímabil. Ég ætla ekki að setja þá pressu á okkur fyrir mót en stuðningsmenn fá vonandi eitthvað af mörkum frá okkur," sagði Veigar Páll en hann sjálfur hefur gert 47 mörk í 85 leikjum í norsku úrvalsdeildinni.

„Mótherjarnir þekkja okkur betur núna og þetta hefur ekki gengið alveg nógu vel á undirbúningstímabilinu. Við komust vonandi aftur í gang og þetta verður vonandi skemmtilegt tímabil," sagði Veigar sem skoraði tvö mörk í síðasta æfingaleiknum fyrir mótið.

„Ég hafði ekkert sjálfstraust þegar ég var í Frakklandi en ég ætla að sýna það að ég get þetta ennþá og vonandi hefur fólk ekki misst trúna á mig. Ég hef lagt mikið á mig til að koma sterkur til baka. Ég elska Stabæk og það hvernig við spilum," segir Veigar Páll en hann segist vera ánægður ef að Stabæk nær fjórða sætinu á þessu tímabili.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×