Handbolti

Fannar: Erfitt að eiga við Birki þegar hann kemst í gang

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birkir Ívar í markinu í kvöld. Mynd/Vilhelm
Birkir Ívar í markinu í kvöld. Mynd/Vilhelm
Fannar Þorbjörnsson og félagar í Valsliðinu náðu ekki að fylgja eftir sigri á Aftureldingu á dögunum þegar þeir sóttu Hauka heim á Ásvelli í kvöld. Haukar unnu leikinn 23-22 með sigurmarki Einars Arnar Jónssonar á síðustu sekúndu leiksins.

„Við gáfum þeim alltof mikið forskot um miðjan seinni hálfleik sem var erfitt að vinna til baka. Við vorum samt nálægt því að vinna það til baka. Það hefði þurft að detta aðeins meira með okkur á síðasta korterinu til þess að við myndum ná að klára þetta," sagði Fannar.

Valsmenn voru með þriggja marka forskot í upphafi seinni hálfleiks en fékk þá á sig sex mörk í röð og skoraði ekki í rúmar níu mínútur. Birkir Ívar Guðmundsson, markvörður Hauka, varði þá hvert skotið á fætur öðru en hann varði alls 22 skot í leiknum.

„Við lentum í því að missa menn útaf og í kjölfarið kom slæmur kafli þar sem við vorum að skjóta snemma og illa og Birkir komst í gang. Það erfitt að eiga við hann þegar hann er kominn í gang en við náðum þó að koma til baka," sagði Fannar en Valur náði að jafna leikinn í 22-22 átta sekúndum fyrir leikslok.

„Það er klárlega batamerki á liðinu því við höfum hingað til brotnað í svona stöðu og tapað með yfir tíu mörkum. Þetta er miklu betra en það hefur verið. Þetta var sárt tap því að mínu mati var þetta dauðafæri á að vinna þá hérna í dag því þeir voru á milli tveggja Evrópuleikja og með mikið álag á sér. þess vegna er þetta ennþá sárara því við áttum virkilega að vinna þá hérna í dag," sagði Fannar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×