Stjarnan tryggði sér fjórða sætið í Pepsi-deild kvenna með 8-0 sigri á KR í fyrsta leik lokaumferðar deildarinnar sem klárast síðan á sunnudaginn. Lindsey Schwartz og Rachel Rapinoe skoruðu báðar tvö mörk í leiknum en markvörðurinn Sandra Sigurðardóttir var meðal markaskorara Stjörnunnar í leiknum.
Stjarnan komst í 1-0 eftir sex mínútur og var 3-0 yfir í hálfleik. Sandra Sigurðardóttir, markvörður og fyrirliði Stjörnunnar, skoraði sjötta markið úr vítaspyrnu á 70. mínútu. Auk þeirra Lindsey Schwartz, Rachel Rapinoe og Söndru skoruðu þær Katie McCoy, Soffía Arnþrúður Gunnarsdóttir og Ásgerður Stefanía Baldursdóttir fyrir Stjörnuna í leiknum.
Stjarnan endar þar með mótið í 4. sætinu með 32 stig en Fylkir var tveimur stigum á eftir Stjörnunni fyrir lokaumferðina og hefði því getað tekið fjórða sætið af Garðabæjarstúlkum ef Stjarnan hefði ekki klárað leikinn í kvöld.
KR 0-8 Stjarnan:
0-1 Katie McCoy (6.)
0-2 Lindsey Schwartz (24.)
0-3 Rachel Rapinoe, víti (45.)
0-4 Soffía Arnþrúður Gunnarsdóttir (65.)
0-5 Lindsey Schwartz (67.)
0-6 Sandra Sigurðardóttir, víti (70.)
0-7 Rachel Rapinoe (70.)
0-8 Ásgerður Stefanía Baldursdóttir (89.)