Körfubolti

Umfjöllun: KR-ingar fyrstir í undanúrslitin

Elvar Geir Magnússon skrifar
Finnur Atli átti fínan leik fyrir KR.
Finnur Atli átti fínan leik fyrir KR. Mynd/Stefán

Íslandsmeistarar KR urðu í kvöld fyrsta liðið til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins með öruggum sigri á ÍR, 81-103, í Seljaskóla. KR vann einvígi liðanna, 2-0.

ÍR-ingar byrjuðu leikinn vel og skoruðu sjö fyrstu stigin. Gestirnir ákváðu þá að hefja leik og voru þeir yfir eftir fjörugan og jafnan fyrsta leikhluta, 23-25. Í þeim leikhluta bar hæst glæsitroðsla frá Morgan Lewis, leikmanni KR.

Finnur Magnússon skilaði mikilvægu hlutverki í fyrri hálfleiknum og Vesturbæingar með ellefu stiga forystu í hálfleik, staðan 42-53.

ÍR-ingar náðu góðum kafla í þriðja leikhlutanum og skyndilega var komin mikil spenna í leikinn, þeir náðu að minnka muninn í tvö stig. KR-ingar tóku þá leikhlé og það skilaði sér í því að þeir skoruðu tíu síðustu stig þriðja leikhlutans.

Í lokaleikhlutanum var spurningin aðeins hversu stór sigur KR yrði. Lokastaðan 81-103.

Pavel Ermolinskij var með 20 stig hjá KR auk þess sem hann tók 16 fráköst og átti 6 stoðsendingar. Hjá ÍR var Robert Jarvis algjör yfirburðarmaður. Aðrir leikmenn skiluðu litlu og það dugði skammt. ÍR-ingar eru komnir í sumarfrí.

ÍR-KR 81-103 (42-53)

Stig ÍR: Robert Jarvis 36, Nemanja Sovic 20, Hreggviður Magnússon 13, Steinar Arason 4, Kristinn Jónasson 4, Eiríkur Önundarson 2.

Stig KR: Pavel Ermolinskij 20 (16 frák, 6 stoðs.), Morgan Lewis 18, Fannar Ólafsson 18, Finnur Atli Magnússon 16, Darri Hilmarsson 13, Jón Orri Kristjánsson 6, Brynjar Þór Björnsson 5, Tommy Johnson 3, Steinar Kaldal 2, Ólafur Ægisson 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×