Körfubolti

Spilar til að heiðra minningu föður síns

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Magnús með svitaböndin í leik gegn Keflavík.
Magnús með svitaböndin í leik gegn Keflavík. Samsett mynd/Rósa & Pjetur

Svitaböndin sem Magnús Þór Gunnarsson, leikmaður Njarðvíkur, ber í leikjum hafa vakið athygli enda ekki hefðbundin og skarta áletruninni: GÞS.

GÞS stendur fyrir Gunnar Þór Sveinbjörnsson en það er nafn föður Magnúsar sem lést á síðasta ári eftir baráttu við krabbamein.

„Pabbi mætti á alla leiki sem ég spilaði frá því ég var lítill gutti. Með því að bera stafinu hans á mér í leikjum er hann enn með mér og ég spila til þess að heiðra minningu hans," sagði Magnús en hann ber svitaböndin bæði á höfði og höndum en það var mágkona hans, Birna, sem bjó þau til fyrir hann.

Magnús verður í eldlínunni með Njarðvík í kvöld er Njarðvíkingar taka á móti Keflavík í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Iceland Express-deildar karla. Keflavík vann fyrsta leikinn og Njarðvík þarf því að vinna í kvöld.

„Við bara „chokuðum" í síðasta leik og það má ekki gerast aftur. Síðustu 5 mínúturnar í þeim leik voru mjög lélegar hjá okkur. Við erum búnir að fara yfir hvað klikkaði þá og það mun ekki gerast aftur," sagði Magnús ákveðinn.

„Ég get alveg lofað því að við erum ekki að fara að tapa 3-0. Það verða í það minnsta fjórir leikir í þessari seríu," sagði Magnús sem hvetur fólk til þess að mæta á leikinn í kvöld enda muni Ljónagryfjan standa undir nafni á nýjan leik.

„Þetta hefur ekki verið Ljónagryfjan í síðustu leikjum en það mun allt breytast í kvöld. Hún verður kölluð sínu rétta nafni í kvöld."

 










Fleiri fréttir

Sjá meira


×