Fótbolti

Stefán Gíslason vill halda áfram að spila með Viking

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stefán Gíslason.
Stefán Gíslason. Mynd/Heimasíða Bröndby
Lánssamningur Stefáns Gíslasonar hjá norska liðinu Viking rennur út 1. ágúst næstkomandi og þá þarf hann að öllu óbreyttu að snúa aftur til danska liðsins Bröndby.

Stefán segist í viðtali á heimasíðu Viking að hann vilji klára tímabilið með norska liðinu. Viking spilar á móti Start á útivelli á mánudaginn kemur og það gæti orðið fyrsti leikurinn síðan að Stefán meiddist fyrir þremur vikum á móti Molde.

„Ég er búinn að æfa vel og skrokkurinn er í góðu lagi. Lungun þurfa kannski nokkra daga til viðbótar en ég er orðinn góður af meiðslunum," sagði Stefán á heimasíðu Viking.

„Ég var smá svekktur að meiðast einmitt þegar ég var kominn í góðan gír og farið að liða vel á vellinum. Þetta eru búnar að vera þrjár vikur sem eru ekkert svo langur tími," sagði Stefán sem vill vera áfram hjá Viking.

„Þetta er flott félag og þetta hefur gengið vel hjá mér. Það er möguleiki á því að vera hér áfram en ég reyni að hugsa sem minnst um það og ætla bara að einbeita mér að því að spila. Það er það eina sem ég get gert," sagði Stefán í viðtali á Viking-síðunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×