Handbolti

Guðmundur: Var köflótt hjá okkur

Elvar Geir Magnússon skrifar
Guðmundur Guðmundsson.
Guðmundur Guðmundsson.

„Við minnkuðum muninn í eitt mark í seinni hálfleiknum og áttum alla möguleika en það þurfti meira í kjölfarið. Það þurfti betri vörn og það þurfti betri sóknarleik eftir þennan góða kafla," sagði Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari eftir tapið gegn Svíþjóð í kvöld.

Sænska liðið vann 31-26 en Guðmundur segir að fleiri jákvæðir punktar hafi verið í spilamennsku Íslands í þessum leik en þeim síðasta þar sem liðið tapaði fyrir heimamönnum í Austurríki.

„Við náðum ekki nægilega mikið af hraðaupphlaupum. Það var aðeins í fyrri hálfleiknum en ekkert í þeim seinni."

„Þetta var köflótt hjá okkur. Varnarleikurinn í fyrri hálfleik var alls ekki nægilega góður en hann var mun betri lengst af í seinni hálfleik. Við getum ekki kvartað yfir sóknarleiknum stærstan hluta þó hann hafi dottið niður eftir góðan kafla í seinni hálfleiknum."

Sigurbergur Sveinsson var markahæstur í íslenska liðinu í kvöld með sex mörk. „Hann stóð sig mjög vel og Oddur (Gretarsson) gerði mjög vel í fyrri hálfleik. Þá varði Sveinbjörn (Pétursson) vel í seinni hálfleik og ekki hægt að kvarta yfir honum þá. Nokkrir aðrir áttu góðar rispur en skorti stöðugleika," sagði Guðmundur. „Aron (Pálmarsson) og Alexander (Petersson) áttu góðan leik í fyrri hálfleik."

Ísland leikur við Noreg á morgun í Heimsbikarnum en leikið er um þriðja sæti mótsins. „Nú stefnum við bara á sigur gegn Noregi en viljum samt sem áður prófa eitt og annað eins og kostur er."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×