Körfubolti

Stoudemire fór á kostum í sigri Suns

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Stoudemire hirðir frákast í baráttunni við Kobe Bryant.
Stoudemire hirðir frákast í baráttunni við Kobe Bryant. AP
Amare Stoudemire spilaði sinn besta leik á ferlinum þegar hann leiddi Phoenix til 109-118 sigurs gegn Los Angeles Lakers í nótt. Phoenix minnkaði muninn í einvíginu þar með í 2-1.

Hann skoraði níu stig á fyrstu fjórum mínútunum og var svo óstöðvandi út allan leikinn. Heimasíða NBA lýsir honum sem hraunflæði frá eldfjalli – hann var bara óstöðvandi. Ótrúlegt en satt þá er ekkert minnst á eldgosið í Eyjafjallajökli í fréttinni, en það er önnur saga.

Stoudemire skoraði 42 stig og hirti 11 fráköst. Hann hefur ítrekað verið orðaður við sölu frá félaginu í sumar. Aðspurður hvort það hafi drifið hann áfram sagði hann svo alls ekki vera.

“Ég vildi bara vinna, þessi leikur var svo mikilvægur. Það keyrði mig og liðsfélaga mína áfram. Við máttum ekki við því að lenda 3-0 undir,” sagði kappinn.

Hjá Lakers var Kobe Bryant með 36 stig, 11 stoðsendingar og 9 fráköst. Hann hitti úr 13 af 24 skotum sínum innan teigsins og 2 af 8 utan þriggja stiga línunnar. Pau Gasol skoraði 23 stig og tók 9 fráköst. Derek Fisher skoraði 18 stig en hann hitti úr þremur af sex þriggja stiga skotum sínum.

Hjá Phoenix var Stoudemire eins og áður sagði með 42 stig auk 11 frákasta. Steve Nash sendi fimmtán stoðsendingar og skoraði sautján stig en Robin Lopez skoraði 20 og Jason Richardson 19.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×