Erlent

Eiginkonan handtekin

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Innan veggja þessa fangelsis dvelst friðarverðlaunahafi Nóbels, Liu Xiaobo, og hefur afplánað tæp tvö ár af ellefu ára fangelsisdómi.
Innan veggja þessa fangelsis dvelst friðarverðlaunahafi Nóbels, Liu Xiaobo, og hefur afplánað tæp tvö ár af ellefu ára fangelsisdómi. fréttablaðið/AP
Kína Liu Xia, eiginkona Liu Xiaobo, var augljóslega höfð í haldi í íbúð sinni í Peking í gær, eftir að hún hafði hitt eiginmann sinn í fangelsi. Hún fær hvorki að hitta fjölmiðlafólk né vini sína.

Fréttir bárust af því að tugir menntamanna hefðu einnig verið settir í stofufangelsi eða orðið fyrir öðru áreiti af hálfu stjórnvalda um helgina, eftir að ljóst varð að Liu Xiaobo fengi Nóbelsverðlaunin.

Liu Xia segir að eiginmaður sinn hafi þegar verið búinn að fá fréttir af ákvörðun norsku Nóbelsnefndar­innar þegar hún kom til hans í fangelsið.

„Bræður, ég er komin til baka,“ skrifaði Liu Xia á Twitter-síðu sína í gær. „Hitti Xiaobo. Hann fékk fréttina af verðlaununum í fangelsinu aðfaranótt hins niunda.“

Wang Jinbo, nánur vinur þeirra og félagi þeirra í andspyrnunni, staðfesti frásögn hennar á Twitter. Hann fullyrðir að Liu Xiaobo hafi sagt eiginkonu sinni, með tárin í augunum, að hann tileinkaði Nóbelsverðlaun sín þeim sem létu lífið þegar kínversk stjórnvöld siguðu hernum á Torg hins himneska friðar hinn 4. júní 1989, þar sem fjölmennur hópur ungs fólks krafðist lýðræðisumbóta.

Liu Xia reyndi strax á föstudag, eftir að norska Nóbelsnefndin skýrði frá ákvörðun sinni, að fá að heimsækja eiginmann sinn í Jinzhou-fangelsinu í Liaoning-héraði, sem er í fimm hundruð kílómetra fjarlægð norður af höfuð­borginni Peking, þar sem hún býr.

Hún fékk þó ekki að hitta hann fyrr en í gær.

Kínversk stjórnvöld brugðust ókvæða við þegar norska Nóbels­nefndin skýrði frá ákvörðun sinni. Talsmaður utanríkisráðuneytis Kína sagði ákvörðunina Nóbels­nefndinni til skammar og hótaði því að samskiptin við Noreg myndu versna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×