Fótbolti

Veigar Páll ætlar að létta sig

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Veigar Páll Gunnarsson í leik gegn Hollendingum. Demy de Zeeuw er með boltann.
Veigar Páll Gunnarsson í leik gegn Hollendingum. Demy de Zeeuw er með boltann. Nordic Photos/Getty Images
„Ég ætla að létta mig," segir Veigar Páll Gunnarsson í viðtali við norska dagblaðið Aftenposten en hann ætlar sér stóra hluti með norska úrvalsdeildarliðinu Stabæk á næstu leiktíð.

Landsliðsframherjinn segir í viðtali við Aftenposten í Noregi að hann ætli sér að léttast um 2 kg. í mars mánuði. Tölfræði Veigars með Stabæk er ótrúleg en stuðningsmenn liðsins hafa í gegnum árin átt því að venjast að hann skori mark eða gefi stoðsendingu í hverjum einasta leik. Veigar er 79 kg. og stefnir hann að því að vera 77 kg. þegar keppnistímabilið hefst.

Veigar hefur leikið 99 leiki með Stabæk í efstu deild frá árinu 2005. Á þeim tíma hefur hann skorað 53 mörk og gefið 42 stoðsendingar. Þessi tölfræði er einstök en hinn 31 árs gamli leikmaður hefur sett sér ný markmið fyrir tímabiliðþ

„Mér líður ekki eins og ég sé feitur en mig langar að létta mig og sjá hvað það gæti leitt af sér. Ég stefni á því að ná meiri hraða. Það getur vel verið að þessi tilraun heppnist ekki – kannski verður jafnvægið minna en áður en ég ætla að prófa og sjá hvað gerist," segir Veigar m.a. í viðtalinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×