Handbolti

Brand vill ekkert tjá sig um framtíðina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Brand á leiknum í Laugardalshöllinni í gær.
Brand á leiknum í Laugardalshöllinni í gær. Mynd/Vilhelm
Heiner Brand, landsliðsþjálfari Þýskalands, segist ekkert vilja tjá sig um framtíð sína í starfi en liðið tapaði í gær fyrir Íslandi í undankeppni EM 2012, 36-31.

Brand hefur mátt þola mikla gagnrýni eftir að Þýskaland varð í ellefta sæti á HM í Svíþjóð fyrr á þessu ári. Margir telja að tími hans sé einfaldlega liðinn en hann hefur verið landsliðsþjálfari Þýskalands undanfarin fjórtán ár.

Hann hefur þó náð frábærum árangri með liðið en Þýskaland varð Evrópumeistari árið 2004 og svo heimsmeistari á heimavelli þremur árum síðar.

„Ég vil ekkert tjá mig um mína framtíð eins og er," sagði Brand við þýska fjölmiðla í gær. „Ég mun hafa eitthvað að segja þegar það er viðeigandi en núna ætla ég að einbeita mér að þessum leikjum gegn Íslandi."

Þýskaland og Ísland mætast ytra á sunnudaginn en liðin eiga í hörkubaráttu við Austurríki um efstu tvö sætin í sínum riðli í undankeppni EM 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×