Körfubolti

NBA í nótt: Óvænt tap Chicago á heimavelli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Joakim Noah og Elton Brand, Philadelphia, í leiknum í nótt.
Joakim Noah og Elton Brand, Philadelphia, í leiknum í nótt. Mynd/AP
Tvö efstu liðin í Austurdeild NBA-deildarinnar í körfubolta töpuðu sínum leikjum í nótt. Efsta liðið, Chicago, tapaði fyrir Philadelphia á heimavelli, 97-85.

Þar með lauk fjórtán leikja sigurgöngu Chicago á heimavelli en Philadelphia lagði höfuðáherslu á að gera Derrick Rose, leikmanni Chicago, lífið leitt í leiknum.

Rose skoraði að vísu 31 stig í leiknum en tapaði boltanum einnig tíu sinnum. Philadelphia náði undirtökunum snemma í leiknum og náði mest 23 stiga forystu í fyrri hálfleik.

Chicago náði að minnka muninn í fjögur stig í fjórða leikhluta en nær komst liðið ekki. Philadelphia missti aldrei tökin og vann að lokum tólf stiga sigur.

Thaddeus Young skoraði 21 stig fyrir Philadelphia en alls voru tíu leikmenn í liðinu sem skoruðu minnst tíu stig í leiknum. Þetta var í annað skiptið í röð sem að Philadelphia vinnur Chicago í vetur.

Chicago er enn efst í Austurdeildinni en Boston mistókst að saxa á forystu liðsins í nótt þar sem að liðið tapaði fyrir Indiana, 107-100.

Miami er svo í þriðja sæti með jafn góðan heildarárangur og Boston en lakari árangur í innbyrðisviðureignum liðanna.

Roy Hibbert skoraði 26 stig fyrir Indiana sem er nú í áttunda og síðasta sætinu í Austurdeildinni sem veitir þátttökurétt í úrslitakeppninni í vor.

Charlotte vann Milwakee, 87-86. Gerald Henderson skoraði síðustu sjö stig leiksins fyrir Charlotte, þar af sigurkörfuna þegar 22 sekúndur voru til leikloka.

New York vann Orlando, 113-106, í framlengdum leik. Carmelo Anthony skoraði 39 stig fyrir New York sem er það mesta sem hann hefur skorað fyrir liðið síðan hann kom til liðsins fyrr í vetur.

Portland vann San Antonio, 100-92. Andre Miller skoraði 26 stig fyrir Portland en þeir Tony Parker, Manu Ginobili og Tim Duncan voru allir frá vegna meiðsla í liði San Antonio sem er með bestan árangur allra liða í deildinni. Þetta var þó fjórða tap liðsins í röð.

Washington vann Utah, 100-95, í framlengdum leik. John Wall skoraði 28 stig fyrir Washington sem vann aðeins sinn annan leik á útivelli í vetur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×