„Við vorum of afslappaðir í stöðunni 16-1 og hættum að gera það sem við ætluðum að gera," sagið Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells eftir 75-73 tap liðsins gegn Stjörnunni í undanúrslitum Íslandsmótsins í körfuknattleik karla í kvöld. Ingi telur að Snæfell geti gert mun betur og hann er ekki svartsýnn þrátt fyrir að vera 1-0 undir gegn Stjörnunni í fimm leikja seríu.
Það gekk mikið á undir lok leiksins og í leikslok voru ýmis orð látin falla. Ingi Þór segir að þroskastigið sé ekki mjög hátt hjá sumum í Stjörnunni og hefur eflaust átt við Teit Örlygsson þjálfara Stjörnunnar sem lenti í orðaskaki við Ryan Amaroso leikmann Snæfells í leikslok.
