Körfubolti

Hreggviður: Engir meistarataktar í vörninni

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Marcus Walker var seigur hjá KR í kvöld.
Marcus Walker var seigur hjá KR í kvöld.
„Varnarleikurinn var dapur og við vorum alls ekki að sýna neina meistaratakta á því sviði," sagði Hreggviður Magnússon, leikmaður KR, eftir tap liðsins á heimavelli gegn Keflavík, 135-139, í undanúrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í Iceland Express deild karla. Staðan í einvíginu er þar með 2-1 fyrir KR.

„Það er ekkert lið líklegt til sigurs sem fær á sig 135 stig. Ég skil reyndar ekki hvernig stendur á því að við fáum miklu fleiri villur í þessum leik. Við spilum vissulega hart en það gera Keflvíkingar líka en dómararnir flautuðu meira á okkur í kvöld," sagði Hreggviður en KR-ingar misstu fjóra leikmenn útaf með fimm villur í kvöld.

Hreggviður kveikti lífi í KR-ingum í síðari hálfleik með fjölmörgum þristum. Hann skoraði alls 28 stig í kvöld og átti frábæran leik. „Við vissum alveg að Keflvíkingar myndu aldrei gefast upp og þessi leikur var frábær skemmtun fyrir áhorfendur. Ef marka má þennan leik þá verður næsti leikur hrein veisla," sagði Hreggviður en áhorfendur fengu að sjá tonn af þristum í kvöld.

Brynjar Þór Björnsson setti niður magnaðan þrist fyrir KR þegar tvær sekúndur voru eftir, þrist sem Hreggviður hefur áður séð sem andstæðingur KR. „Brynjar er mikill töffari og hann getur sett niður þessi stóru skot. Það eru því vonbrigði að ná ekki að klára leikinn eftir þessa mögnuðu endurkomu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×