Erlent

Brúðurin veit ekki hvert ferðinni er heitið

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Kossinn frægi.
Kossinn frægi.
Brúðkaupsgestir skemmtu sér konunglega í Buckingham höll í nótt eftir brúðkaup Vilhjálms bretaprins og Katrínar Middleton.

Þrjú hundruð vinir og vandamenn brúðhjónanna voru saman komnir í veglegri veislu í Buckingham höll í gærkvöldi. Bróðir brúðgumans, Harry prins, ávarpaði brúðhjónin sem og faðir brúðarinnar Michael Middleton.

Brúðurin klæddist hvítum kvöldkjól eftir hönnuðinn Söruh Burton sem einnig hannaði brúðarkjólinn margumtalaða. Hjónin gistu í höllinni eftir veisluna. Gestir veislunnar voru að tínast inn á hótel sitt í miðborg Lundúna að ganga fjögur í morgun eftir vel heppnaða veislu að sögn Sky fréttastofunnar.

Brúðhjónin lögðu nú fyrir hádegi af stað í brúðkaupsferð sína með þyrlu frá Buckingham höll. Mikil leynd hvílir yfir ferðinni og veit brúðurin sjálf ekki hvert skal haldið. Að sögn vonast hjónin til þess að fjölmiðlar láti þau í friði á meðan á ferðinni stendur, eftir að hafa verið í sviðsljósinu undanfarnar vikur.

Um ein milljón gesta kom saman í miðborg Lundúna í gær til að fylgjast með brúðkaupinu og milljónir breta héldu fögnuðinum áfram fram eftir nóttu. Kráareigendur fengu að hafa staði sína opna tveimur klukkustundum lengur og var gleðskapurinn mikill að sögn Sky.

Borgarstarsfmenn Lundúna eiga hinsvegar mikið starf fyrir höndum við að tína upp rusl eftir mannfjöldann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×