Körfubolti

Keflvíkingar missa besta miðherja deildarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigurður Gunnar Þorsteinsson.
Sigurður Gunnar Þorsteinsson. Mynd/Daníel
Keflvíkingar tilkynntu það á heimasíðu sinni í dag að ísfirski miðherjinn Sigurður Gunnar Þorsteinsson muni ekki endurnýja samning sinn við félagið. Sigurður Gunnar hefur verið í stóru hlutverki hjá Keflvíkingum undanfarin fimm ár og var á dögunum valinn í úrvalslið ársins í annað skiptið á þremur árum.

„Nú er orðið ljóst að Sigurður Gunnar Þorsteinsson mun ekki endurnýja samning sinn við Körfuknattleiksdeild Keflavíkur. Þessi niðurstaða var ljós í gær, eftir að samningaviðræður sem staðið hafa yfir síðustu vikur, sigldu í strand. Körfuknattleiksdeild Keflavíkur tefldi fram betri samning við Sigurð og spennti bogann eftir ýtrustu getu en án árangurs," segir í frétt á heimasíðu Keflavíkur.

Karfan.is hefur heimildir fyrir því að Sigurður Gunnar sé með tilboð frá bæði KR og Grindavík en það er ljóst að þessi 23 ára miðherji yrði mikill liðstyrkur hvort sem að hann fari til Grindavíkur eða í Vesturbæinn.

Sigurður Gunnar var með 15,1 stig og 7,5 fráköst að meðaltali í deildinni í vetur en hann hækkaði þær tölur upp í 17,5 stig og 9,0 fráköst í leik í úrslitakeppninni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×