Körfubolti

Sigurður Gunnar og Jóhann Árni í Grindavík

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigurður Gunnar Þorsteinsson.
Sigurður Gunnar Þorsteinsson. Mynd/Daníel
Grindvíkingar eru að fá stóran liðstyrk í körfunni því samkvæmt heimildum Víkurfrétta þá munu þeir Sigurður Gunnar Þorsteinsson og Jóhann Árni Ólafsson skrifa undir samning við Grindavík í kvöld. Sigurður Gunnar kemur frá Keflavík en Jóhann Árni frá Njarðvík.

Það var þegar orðið ljóst að Sigurður Gunnar yrði ekki áfram með Keflavíkurliðinu eftir að slitnaði upp úr samningaviðræðum hans við félagið. Sigurður Gunnar er upphaflega frá Ísafirði en hefur spilað með Keflavík frá árinu 2006.

Það var einnig ljóst að Jóhann Árni yrði ekki áfram með Njarðvíkurliðinu þar sem hann er uppalinn og hefur spilað allan sinn feril fyrir utan eitt tímabil í Þýskalandi.

Sigurður Gunnar sem er miðherji, var kosinn í lið ársins á síðasta tímabili en hann var með 15,7 stig og 7,9 fráköst að meðaltali í leik og var með níunda hæsta framlagið í deildinni. Jóhann Árni sem er lítill framherji var með 12,5 stig, 3,9 fráköst og 2,8 stoðsendingar að meðaltali með Njarðvík á síðasta tímabili.

Sigurður Gunnar og Jóhann Árni mun styrkja Grindavíkurliðið mikið fyrir átök vetrarins en liðið hefur dottið út úr átta liða úrslitum úrslitakeppninnar undanfarin tvö tímabil.

Helgi Jónas Guðfinnsson mun þjálfa liðið annað árið í röð en hann fór með liðið í bikarúrslitaleikinn í vetur þar sem liðið tapaði fyrir KR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×